þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Ég og bankinn minn

Í morgun hlotnaðist mér sá mesti heiður sem venjulegum, íslenskum launamanni getur hlotnast í fjármálakerfinu. Ég fékk stöðuhækkun í bankanum mínum - fer úr Gullvild í Platínumvild. Ég brosi í gegnum tárin og ýti öllum efasemdaröddum sem láta á sér kræla um að bankinn hafi kannski ekki mína velferð í huga við þessi tímamót til hliðar. Smáa letrið hefur ekki verið lesið.

Kannski að jafnvægi sé að komast á í ástar-hatur sambandi mínu og bankans míns. Maginn á ekki lengur að snúast á hvolf þegar hann hringir í mig. Tíminn er sennilega farinn að vinna með mér með í þessu nauðungarhjónabandi og sú staðreynd að þrátt fyrir allt sem gengið hefur á hef ég alltaf verið honum trú. Rúmlega 10 ár í sama bankanum og sama útibúinu eru farin að skila sér. Hann hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt; námslánakrísur, tvenn íbúðarkaup, reddingar hér og þar - og hann hefur grætt óendanlega á mér í FIT kostnaði og yfirdráttarvöxtum. Við verðum aldrei kvitt. Og þegar hann réttir að mér dúsu er ég óendanlega glöð.

Líf í cyberspace


Ef þetta er ekki geðveiki þá veit ég ekki hvað er það.

Lífið fer í hringi, fortíðin (sem virðist vera í ljósrárafjarlægð, minningarnar í móðu, frá einhverju allt öðru tilverustigi) bítur í skottið á manni og það svíður undan.
Og allt kemur þetta aftan að manni á endanum
Virkar þetta enn? Ertu ekki að kidda í mér, hélt þetta væri löngu týnt og horfið veg allrar veraldar. En bítur ekki fortíðin í skottið á manni þegar maður á síst von á...

fimmtudagur, september 11, 2003

Hahh!! Ég er algjör snillingur... ég segi það satt. Ég er barasta búin að koma þessu drasli upp alveg sjálf! HTML krukkið í Internetkúrsinum hérna í denn er alveg að gera sig.
Og aftur...
Kommentakerfi
Nú er ég bara að athuga hvort kommentakerfið virkar...

miðvikudagur, september 03, 2003

Besta djammið - þynnka dauðans... og nokkrir linkar
Frábært djamm hjá okkur vinskessunum á laugardagskvöldið. Byrjuðum á að grilla heima hjá Miss Sacher; kebabbollur, steinbít og fínerí. Grillaður ananas a lá Nigella Lawson, sterkt kaffi og Amarúlla í eftirrétt. Mmm. Svo hófumst við handa við Berlínarkokteilinn og að dansa eins og vitleysingar á stofugólfinu hjá Miss Sacher eftir að við frú Berlín fengum kast í geisladiskasafninu hennar. Það voru Grýlurnar, Egó og Rússíbananrnir sem m.a. voru teknir af mikilli innlifun. Nú, eftir viðkomu á Grandrokk (hvar Singapor Sling voru að spila) og Ölstofunni héldum við á 22. Þvílíkt stuð! Við dönsuðum eins og við værum tvítugar og skipti engu máli hvort DJ-inn spilaði Madonnu eða Nirvana... við vorum þvílíkt að fíla okkur í botn. Skriðum út kl. 6:00 eins og vampýrur, allt orðið bjart og flestir farnir heim að lúlla. Enginn Hlölli, engar Bæjarins bestu. Var komin í bælið um 7 leytið, alsæl.

Þynnka sunndagsins var með allra mesta móti, held ég bara sú mesta í nokkur ár. Helgaðist kannski helst af því að í staðin fyrir að halda mig í bælinu og emjast þar dreif ég mig með í fjölskyldukaffi austur í Hveragerði, svona til að sýna nú að ég væri fjölskyldumanneskja. Mikil mistök. Sat stjörf í framsætinu á leiðinni austur og þegar í kaffiboðið var komið var ég orðin náföl og svitinn spratt fram á ennið á mér eins og á versta róna. Gat ekkert borðað af fínu íslensku hnallþórunum, hvað þá fengið mér rjúkandi kaffibolla. Skreið upp í sófa um leið og við komum heim og sofnaði yfir fréttunum. Vaknaði um hálftíuleytið og fann að þessi dagur dauðans var loksins á enda - ég var orðin hressari og gat fengið mér að borða án þess að það kæmi allt saman sömu leið til baka. Ehemm. ´

Krúsa er búin að vera lasin alla vikuna, með hita, kvef og hálsbólgu. Mér sýnist hún vera að hrista þetta af sér, fer sennilega í skólann á morgun. Var heima með henni í gær og fyrradag. Var alveg ótrúlega dugleg, tók til og þreif á mánudaginn en afþýddi ískápinn á þriðjudaginn - ég veit það, ég veit ekki hvað kom yfir mig, þetta er bara alveg með ólíkindum. Er vön að taka svona daga bara í afslöppun í lestri eða sjónvarpsglápi með sjúklingnum. Náði annars að horfa á Friends á þriðjudaginn, þætti í nýjustu syrpunni. Eitthvað er langt síðan ég horfði síðast en það hafði algjörlega farið fram hjá mér að Rachel væri flutt með barnið til Joey, man ekki eftir að það hafi gerst í þeim þáttum sem ég sá síðast. Alveg augljóst að það á eitthvað eftir að gerast á milli þeirra. Allir með öllum... Anyway, alltaf jafn gaman af Friends, ég væri næstum því tilbúin að borga 5000 kall á mánuði til að sjá þessa þætti reglulega. Púff... Horfi bara á Skjá einn í staðinn og hlakka til þegar Judging Amy byrjar aftur og svo Sex and the City hjá Ríkinu. Jú, auðvitað líka Bráðavaktin; ég missi bara alltaf af henni því ég er á kóræfingum á Bráðavaktarkvöldum.

Hér á hægri vænginn eru kominir nokkrir linkar á þá bloggarana sem ég les reglulega. Mæli sérstaklega með Venna júdókappa, af því ég held hann sé ekki mjög þekktur sem bloggari, en hann er þvílíkur snilldarpenni og húmoristi að það er alveg unun að lesa hann. Hann og Dr. Gunna.

föstudagur, ágúst 29, 2003

Mini-MA-Reunion
Áttum alveg yndislegt kvöld í gærkvöldi á Vegamótum, nokkrir gamlir MA-ingar, í smá upphitun fyrir 10 ára stúdentinn næsta sumar. Úff, hvað það verður gaman. Rosalega gaman að hittast, rifja upp ýmislegt, spá og spekúlera, slúðra og fara í "hverjir eru hvar" gírinn. Takturinn var sleginn strax í upphafi kvöldsins þegar við komumst að því að tilboðsbjór kvöldsins var San Miguel, alveg einstaklega við hæfi þar sem margir í hópnum kynntust þeim ágæta bjór vel í útskriftarferð á Mallorca á því herrans ári 1993. Stelpurnar á næsta borði forðuðu sér strax eftir fyrstu hlátursrokuna. Komumst að ýmsu eins og t.d. a) sumir beytast bara ekki neitt b) alls ekki allir voru búnir að finna sína "réttu hillu" í lífinu, þ.e. finna út hvað þeir vilja verða þegar þeir verða stórir, ekki heldur þeir sem eru komnir með háskólaprófið og c) það er ekki vænlegt að spyrja gamla skólasystur sem maður hefur ekki hitt í mörg ár hvort hún sér "hrifin af konum".

Svo er ég strax farinn að hlakka til annað kvöld en þá ætlum við Miss Sacher og frú Berlín að hittast og grilla saman, drekka rauðvín og Cabrinia eða hvað það nú heitir (heitasti kokteillinn í Berlín) og verða mjúkar. Fara svo á Toogtyve og rifja upp gamla takta. Aber ja. Er orðið mjög, mjög langt síðan við höfum verið bara þrjár saman á ekta stelpu kvöldi og farið svo út á lífið. Fíflið ég dreif mig aldrei út að heimsækja Miss Sacher til Österreich meðan hún bjó þar svo ekkert varð að stelpukvöldi á erlendri grund. Kannski náum við Miss Sacher að skella okkur út til Berlínar einhverntíma eða við látum verða af því að hittast einhversstaðar þrjár, eins og t.d. í London eins og var alltaf meiningin að gera. Hmmm. Gauka því að þeim að það verði þrítugsafmælisgjöfin okkar til okkar sjálfra, að fara saman í helgarreisu svona girlystyle.

Og í tilefni þess: Das ist die Familie Bauer aus Freiburg. Das Flugzeug ländet in Keflavik. "Ahh, so viel Lava!!"

Í spilaranum: Getz/Gilberto

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Gítarspilandi Kr-ingur
Menningarlegu uppeldi Krúsu hefur sennilega verið bjargað fyrir horn. Draumar um að erfinginn yrði að tónelskandi gítarsnillingi fuku út í veður og vind þegar bréf barst frá Tónmenntaskóla Reykjavíkur um verulega hækkun á skólagjöldum fyrir veturinn. 100 þúsund kall kostar nú hljóðfæranám í þeim ágæta skóla, fyrir utan hljóðfæraleigu og annan kostnað sem til getur fallið eins og nótnakaup. Þó að ég sé nú ekkert á fátæktarmörkum er þetta full mikið mína buddu - eða fyrir vísakortið ætti maður kannski að segja. Mér fannst samt algjör synd að geta ekki virkjað tónlistaráhugann hjá barninu, hún varð fyrir verulegum vonbrigðum þegar við báðum hana að íhuga að hætta við allt saman. En nú held ég að komin sé lausn. Gítarskóli Íslands býður upp á námskeið fyrir og eftir áramót í gítarspili, held við leyfum henni bara að fara á það og þá sér hún líka hvernig henni líkar að vera í tónlistarnámi og hvernig henni semur við gítarinn. Ég held ég skelli henni svo bara strax á biðlista hjá Tónlistarskólanum Do Re Mí fyrir næsta vetur. Mennigunni bjargað fyrir horn og ég get haldið áfram að láta mig dreyma um tónlistarsnilling í familíunni...

Annars er Krúsa að festa sig all verulega í sessi sem vesturbæingur þar sem hún er farin að æfa fótbolta með KR. Mætti alsæl á fyrstu fótboltaæfinguna á mánudaginn. Gangi þetta vel hjá henni þarf maður að fara að huga að takkaskóm og KR-búningi. Það er ekki eitt heldur allt. Hef enga reynslu af þessum fótboltabransa en mér líst vel á að hún hafi áhuga á að stunda einhverjar íþróttir. Vonandi bara helst áhuginn, það er nauðsynlegt að hafa einhverja hreyfingu með menningunni og skátastemmningunni.

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Skrapp í Góða hirðinn í hádeginu að kíkja á bækur. Síðustu tvö skipti sem ég hef kíkt þangað hef ég ekki fundið neitt sérstakt en hef oft fundið þar þvílíkar perlur, vel með farnar og hundódýrar bækur. Góði hirðirinn er langódýrasta bókabúðin í bænum. Þar fann ég einu sinni fyrstu Blíðfinnsbókina, alveg eins og nýja. Í dag keypti ég Along came a Spider eftir James Patterson en bækur hans hef ég eingöngu keypt hundódýrar á mörkuðum eða í fornbókabúðum. Ég keypti eimitt Kiss the Girls á eitthvert slikk á einhverjum markaðnum. Svo keypti ég að gamni íslenska þýðingu á John Grisham, þýdda af engri annarri en Nönnu nöfnu minni matgæðingi. Man ekki í augnablikinu hvað hún heitir á íslensku. Hef aldrei lesið John Grisham - en hei- bókin var á 100 kall, harðspjalda og mjög vel með farin. Keypti líka bók sem er dagbók stúlku sem ólst upp í Bosníu og lendir í hörmunugum þar í stríðinu. Hef áður lesið svipaða bók, Leila bosnísk stúlka, alveg hræðileg saga stúlku sem lenti í nauðgunarbúðum í Bosníu.

Over and out.
Vínsmökkun og gæsir
Helgin var alveg stórfín. Fékk stórkostlega máltíð og drakk mikið rauðvín á föstudagskvöldið með Miss Sacher & co. í stórskemmtilegu patrtýi. Laugardagurinn fór svo eiginlega allur í gæsapartý sem tókst svona líka rosalega vel. Tilvonandi brúður alveg hæstánægð með daginn, en hún hafði lagt blátt bann við að hún yrði klædd upp í Frank N Further búning og látin labba á handahlaupum niður Laugaveginn eða einhverjar álíka gloríur. Eftir ýmsar þrautalausnir fórum við á Hið Íslenzka reðasafn (uhmm - er alveg hægt að fara í gröfina án þess að hafa farið á það ágæta safn), svo í Bláa lónið þar sem brúðurin fékk dekur og fórum svo að borða á Galíleó. Mmmmm. Góður matur og frábær staður. Enduðum á að sameinast steggjapartýi brúðgumans á Victor. Sunnudeginum varið í rólegheit og afslappelsi ein heima, en Minn heittelskaði og Krúsa skruppu austur fyrir fjall að taka þátt í golfmóti.

Svo var fyrsta kóræfingin í gærkvöldi, mikið skemmtiprógramm framundan. Síðasti vetur var frekar heví; tíu ára afmæli kórsins og því voru á dagskrá öll lög sem samin hafa verið fyrir kórinn + plús eitt nýtt verk sem samið var sérstaklega í tilefni afmælisins. Dagskráin eftir áramót var því frekar í þyngri kantinum en jólaprógrammið var reyndar alveg magnað, gospel- og negrasálmar þar sem Páll Rósinkranz söng með okkur einsöng. Úff. Maðurinn er stórkostlegur söngvari og við náttúrulega allar heillaðar upp úr skónum. Núna verður semsagt sett upp show í október, sixities prógramm og það er bara shoop, shoop og lollipop, lollipop swing dæmi. My Boyfriend's Back, Mr. Postman, It's My Party og fleiri snilldarlög. Og einsöngvarinn smellpassar alveg inn í þetta dæmi, verður upplýst síðar hver það er. Wink, wink.

Í spilaranum: K.D. Lang Ingénue

föstudagur, ágúst 22, 2003

Er núna að endurnýja kynnin við Cranberries, Bury the Hatchet diskinn. Mmmm. Þegar diskurinn er búinn ætla ég að hlusta á nýjasta Cardigans diskinn.

Annar slangar mig í þennan disk og þennan og þennan, ég held að hann sé algjör snilld. Af hverju eru geisladiskar á Íslandi svona dýrir?

Gengur ótrúlega hægt að lesa Potter, ég er einhvernveginn alltaf svo þreytt á kvöldin að ég sofna út frá lestrinum og kemst bara ekkert áfram. Er búin með rúmlega 100 blaðsíður en það sér ekki högg á vatni. Svo bíða fullt af bókum sem ég hef keypt mér í sumar eins og The Piano Tuner, The Little Friend, Fingersmith og þessar bækur eftir egypskan höfund sem ég veit engin frekari deili á en fannst ég bara verða að lesa eftir að hafa lesið um þær á amazon. Svo langar mig að eignast þessa og þessa og allar Arnald Indriðason bækurnar og... hrmpf. Bókafrík.
Að blogga eða ekki blogga?
Jamm. Sumir eru semsagt búnir að finna slóðina á þetta blogg sem dó í fæðingu og auglýsa það um víðáttur veraldarvefsins. Hugmyndin að þessu síðukorni var í upphafi bara að prófa og tékka á hvernig þetta væri - ef þetta væri rosagaman og mikið hitt ætlaði ég að láta þetta spyrjast út. En gafst svo upp áður en að því varð. Það er sennilega rétt hjá Ernu að það er lítið gaman af þessu ef maður ef engin díalóg er í gangi við aðra bloggara; þá er maður náttúrulega bara að babbla eitthvað út í hið óendanlega cyberspace.

Anyways. Prófa kannski aftur. Verst að ég er hrædd um að þetta taki svo mikinn tíma frá manni. Eyði nógu miklum tíma á Netinu í dag við að lesa hinar og þessar bloggsíðurnar. Ef þetta fer eitthvað að bitna á afköstunum í vinnunni og svona þá hætti ég. Punktur.

Annars má merkja það að haustið og veturinn fer að nálgast þegar maður þarf að fara skipuleggja helgarnar framundan. Næstu tvær helgar eru bókaðar. Í kvöld fer ég með Miss Sacher í partý með vinnufélögum hennar sem eru að hluta til gömlu vinnufélagar mínir. Starfsmenn deildarinnar hennar ætla að halda partý í kvöld með mökum, þar sem einhverjir sumarstarfsmenn eru hætta og aðrir að koma úr barneignarleyfi. Þar sem kærasti Miss Sacher er staddur í Bagdad akkúrat þessa stundina er ég deitið hennar í kvöld. Hlakka til. Á morgun er svo gæsapartý gamallar vinkonu að norðan. Dagskrá frá 14.30 og endað á að fara út að borða. Reyni sennilegast að enda kvöldið með Miss Sacher og Berlínarhjónunum en herra Berlín er að fara aftur út til Danmerkur á sunnudaginn. Á næsta fimmtudag er stefnt að smá MA gettogether á einhverjum barnum, áður en Frú Berlín heldur aftur til Berlínar að sökkva sér í síðustu ritgerðartörnina. Læðan og Erna: Þið mætið, læt vita þegar nær dregur um stað og stund. Á föstudaginn ætlum við pæjurnar í vinnunni að fá okkur drykk eftir vinnu og það hefur oftar en ekki endað í einhverju húllum hæi. Félagslífið s.s. allt að lifna við.